Öruggt hjá Árborg í 1. umferð

Árborg vann öruggan sigur á KB í 1. umferð Borgunarbikars karla í knattspyrnu þegar liðin mættust á Selfossvelli í kvöld.

Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleik og skoruðu þá þrjú mörk. Arilíus Óskarsson braut ísinn á 18. mínútu og á 35. mínútu skoraði Aron Freyr Margeirsson af vítapunktinum eftir að brotið hafði verið á Árna Páli Hafþórsssyni. Hartmann Antonsson skoraði svo þriðja markið með síðustu snertingu fyrri hálfleiks.

Síðari hálfleikurinn var jafnari en Arilíus bætti við fjórða marki Árborgar á 54. mínútu. Þegar um fimmtán mínútur voru eftir fengu tveir leikmenn KB sitt seinna gula spjald, fyrir brot og kjaftbrúk og gestirnir luku því leiknum níu á móti ellefu.

Árborg hugðist nýta sér liðsmuninn og sótti stíft á lokamínútunum. Árni Páll bætti fimmta markinu við á 83. mínútu en á þeirri 89. náði Kristján Þorkelsson að minnka muninn fyrir KB. Lokatölur 5-1.

Árborg mætir annað hvort KFS eða Hamri í 2. umferðinni, en Hvergerðingar mæta Eyjaliðinu í Vestmannaeyjum á morgun.

Fyrri greinSkógasafn fær þrjá gripi úr vélasafni Landsbankans
Næsta greinOpið hús hjá Leikfélagi Selfoss