Fimm heimamenn framlengja við FSU

Fimm heimastrákar hafa skrifað undir samninga þess efnis að leika áfram með körfuknattleiksliði FSU í 1. deildinni á næsta tímabili.

Þetta eru þeir Jörundur Snær Hjartarson, 19 ára framherji, Svavar Ingi Stefánsson, 23 ára framherji/miðherji, Ari Gylfason, 27 ára skotbakvörður, Hlynur Hreinsson, 24 ára leikstjórnandi og Hilmir Ægir Ómarsson, bráðum 19 ára skotbakvörður/framherji.

Allir hafa þeir spilað hlutverk í liðum FSU á síðustu árum en Svavar, Ari og Hlynur hafa verið lykilmenn í meistaraflokki félagsins.

Í frétt frá FSU segir að ekki þurfi að taka fram hvílíkar gleðifréttir hér eru sagðar, fyrir félagið og stuðningsmenn þess.

„Það er sérlega ánægjulegt að þessir úrvalsdrengir haldi tryggð við félagið sitt, en það er ekki sjálfgefið eins og dæmin sanna. FSU-KARFA er stolt af sínum og bíður með óþreyju eftir fleiri leikmönnum upp úr yngriflokkastarfinu. Þeir verða ekki settir til hliðar þegar þar að kemur. Félagið leggur megináherslu á að gefa hinum ungu og upprennandi tækifæri. Þessi stefna var rækilega undirstrikuð á nýliðnu tímabili, þegar margir kornungir leikmenn, m.a. frá nágrannabyggðum, fengu margar mínútur og mikil tækifæri til að þroskast og bæta sig,“ segir í frétt frá FSU.

Frekari fréttir af leikmannamálum félagsins eru væntanlegar fljótlega og ekki loku fyrir það skotið að þar verði á meðal fleiri heimamenn með hjartað á réttum stað.

Fyrri greinÞrír jeppar stöðvaðir á hálendinu
Næsta greinHamar steinlá í oddaleiknum