Selfyssingar steinlágu í fyrsta leik

Selfoss tapaði stórt þegar liðið mætti Aftureldingu í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld.

Selfoss hafði undirtökin framan af fyrri hálfleiknum og leiddi með einu marki í leikhléi, 8-9. Seinni hálfleikurinn var hins vegar eign Aftureldingar frá upphafi til enda. Munurinn jókst jafnt og þétt og endaði í fjórtán mörkum, 31-17.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Teitur Örn Einarsson og Einar Sverrisson skoruðu 4 mörk og þeir Guðni Ingvarsson og Haukur Þrastarson skoruðu sitt markið hvor.

Einar Vilmundarson var frábær í marki Selfoss í fyrri hálfleik, en Selfyssingar fengu nánast enga markvörslu í seinni hálfleiknum, enda var varnaleikur liðsins slakur. Einar varði 9/1 skot í leiknum, þar af 7/1 í fyrri hálfleik.

Næsti leikur liðanna er á Selfossi á miðvikudagskvöld og þar verða Selfyssingar að sigra til þess að komast í oddaleik á útivelli á laugardag.

Fyrri greinKA sló Selfoss úr Lengjubikarnum
Næsta greinÓsáttur við kaup á leirtaui af kvenfélaginu