Ólafur og Ingvar sæmdir silfurmerki HSK

Aðalfundur Frjálsíþróttaráðs HSK var haldinn Selinu á Selfossi á dögunum en þar mættu um tuttugu manns frá átta aðildarfélögum ráðsins.

Á fundinum var rætt um starfsemi liðins árs, sem hefur verið kröftugt, en ráðið heldur fjölda héraðsmóta og þá hélt ráðið eitt meistaramót fyrir FRÍ. Auk þess tekur ráðið, í samstarfi við félögin, þátt í öllum meistaramótum FRÍ. Ársreikningur ráðins var lagður fram og þar kemur fram að fjárhagur ráðsins er traustur, en tæplega 600 þúsund króna hagnaður varð af rekstrinum á síðasta ári.

Ein breyting var á stjórn ráðsins á fundinum, en Ingvar Garðarsson, sem hefur setið í stjórn ráðsins síðan 2005, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Bryndís Eva Óskarsdóttir, Umf. Gnúpverja kemur ný inn í stjórn, en hún var kosin til tveggja ára. Guðmunda Ólafsdóttir formaður og Tómas Karl Guðsteinsson voru endurkjörin til tveggja ára. Helgi Haraldsson og Silja Dögg Jensdóttir voru kosin til tveggja ára árið 2016.

Í lok fundar sæmdi Guðmundur Jónasson, gjaldkeri HSK, þá Ingvar Garðarsson og Ólaf Guðmundsson silfurmerki HSK fyrir þeirra miklu og góðu störf fyrir sambandið á undanförnum árum.

Fyrri greinHringferð Brands lýkur í dag
Næsta greinSunnlenska.is sjö ára í dag