Hamar vann Suðurlandsslaginn

Hamar vann grannaslaginn gegn Stokkseyri í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag og Ægir náði í þrjú stig gegn Sindra.

Ægir og Sindri mættust í B-deildinni á Selfossvelli og Gunnar Bent Helgason kom Ægi yfir með marki úr vítaspyrnu strax á 2. mínútu. Sindramenn svöruðu með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan var 1-2 í leikhléi.

Pálmi Þór Ásbergsson jafnaði metin fyrir Ægi á 63. mínútu og Gunnar Orri Guðmundsson skoraði sigurmark Þorlákshafnarliðsins þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þá voru Ægismenn einum leikmanni færri eftir að Ólafur Sveinbjörnsson hafði fengið að líta sitt annað gula spjald tíu mínútum fyrr. Lokatölur 3-2.

Ægir er í 3. sæti síns riðils þegar einni umferð er ólokið, með sex stig, og á ekki möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

Það var mjög hart barist í seinni leik dagsins á Selfossvelli en þar mættust Stokkseyri og Hamar í C-deildinni. Gamla brýnið Kjartan Þór Helgason kom Stokkseyri yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan var 1-0 í leikhléi.

Brynjar Elí Björnsson og Samuel Malson skoruðu hins vegar sitt hvort markið fyrir Hamar í seinni hálfleiknum og tryggðu Hvergerðingunum 1-2 sigur.

Hamar er í 4. sæti riðilsins með 6 stig en Stokkseyri er í botnsætinu með 1 stig. Hamar á enn tölfræðilega möguleika á sæti í úrslitakeppninni en til þess þarf liðið að vinna topplið Kormáks/Hvatar með þriggja marka mun í lokaumferðinni og treysta á að GG og Vatnaliljur tapi stigum í sínum leikjum gegn botnliðunum.

Fyrri greinEldur í iðnaðarhúsnæði á Selfossi
Næsta greinSelfoss tapaði í Safamýrinni