Hamarsmenn komnir í úrslitarimmuna

Hamar kláraði frábært einvígi gegn Fjölni í 1. deild karla í körfubolta með sigri í oddaleik í Grafarvoginum í dag, 91-101. Hamar sigraði því 3-2 í einvíginu og mætir Val eða Breiðabliki í úrslitarimmu um sæti í úrvalsdeild.

Fjölnismenn byrjuðu betur í leiknum í dag en Hamar svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og leiddi í hálfleik, 39-46. Þriðji leikhluti var hnífjafn en Hamar hafði frumkvæðið í 4. leikhluta og náði mest fjórtán stiga forskoti um hann miðjan.

Valur og Breiðablik mætast í oddaleik á morgun og ljóst að Hvergerðingar munu fylgjast spenntir með þeim leik. Þjálfari Breiðabliks er Lárus Jónsson, fyrrum leikmaður og þjálfari Hamars.

Tölfræði Hamars: Christopher Woods 26 stig/18 fráköst, Erlendur Ágúst Stefánsson 18 stig/6 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 15 stig/7 stoðsendingar, Oddur Ólafsson 13 stig, Hilmar Pétursson 12 stig/6 fráköst, Örn Sigurðarson 10 stig/6 fráköst, Smári Hrafnsson 5 stig, Snorri Þorvaldsson 2 stig.

Fyrri greinÖkklabrotnaði við Gljúfrabúa
Næsta greinSelfoss tapaði á Nesinu