„Þrá og vilji í mínum mönnum“

Selfyssingar fóru langt með að tryggja sæti sitt í Olís-deild karla í handbolta á næstu leiktíð með mögnuðum sigri á Stjörnunni á útivelli í kvöld, 24-25.

„Sókn­ar­leik­ur­inn var svo út­sjóna­sam­ur og lausnamiðaður, það skilaði okk­ur sigri. Það var mik­il þrá og vilji í min­um mönn­um, líka þegar við vor­um fjór­um mörk­um und­ir. Ég sagði við strák­ana að við mynd­um vinna leik­inn ef við héld­um áfram all­ar 60 mín­út­urn­ar og ekki gef­ast upp,” sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við Morgunblaðið eftir leik.

Leikurinn var jafn á nánast öllum tölum upp í 8-8 en þá tóku Stjörnumenn leikhlé. Í kjölfarið komust þeir í 12-9 en Stjarnan leiddi 12-10 í hálfleik.

Stjarnan var skrefi á undan framan af síðari hálfleik og munurinn var fjögur mörk, 21-17, þegar fimmtán mínútur voru eftir. Þá skoruðu Selfyssingar fjögur mörk í röð og jöfnuðu 21-21 þegar átta mínútur voru eftir. Selfyssingar náðu forystunni í kjölfarið og Einar Sverrisson skoraði sigurmarkið þegar mínúta var eftir.

Stjarnan missti boltann í næstu sókn og Selfyssingar náðu að hanga á sigrinum þó tæpt hafi það verið, því heimamenn unnu boltann aftur á lokasekúndunum og skoruðu mark sem ekki var dæmt gilt um leið og lokaflautið gall.

Hergeir Grímsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 6/2, Einar Sverrisson, Elvar Örn Jónsson og Alexander Egan 3 og þeir Guðni Ingvarsson, Sverrir Pálsson og Guðjón Ágústsson.

Selfoss hefur nú 22 stig í 6. sæti deildarinnar, þegar tvær umferðir eru eftir. Fram og Akureyri eru í botnsætunum með 18 og 17 stig, en eiga þrjá leiki eftir, þar af einn leik innbyrðis.

Fyrri greinRosalegt kvöld í Hveragerði – Oddaleikur á laugardag
Næsta greinVegurinn orðinn hvítur og fjólublár