Selfoss á toppinn eftir sigur á ÍBV

Selfyssingar tylltu sér í toppsæti síns riðils í Lengjubikar karla í knattspyrnu með því að leggja ÍBV að velli, 1-0, á JÁVERK-vellinum á Selfossi í dag.

Selfyssingar eru því öruggir með sæti í úrslitakeppninni.

Eyjamenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Selfyssingar vörðust vel og færin voru ekki mörg. Staðan var 0-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur hófst á sömu nótum og sá fyrri, Eyjamenn sóttu en færin voru fá. Á 54. mínútu fékk Alfi Lacalle góða sendingu innfyrir vörn ÍBV og hann kláraði sitt færi af mikilli yfirvegun og púttaði boltanum í bláhornið.

Eyjamenn sóttu í sig veðrið og Guðjón Orri Sigurjónsson átti eina mjög góða markvörslu, og Selfoss hélt áfram hreinu. Þegar fimmtán mínútur voru eftir fékk einn leikmanna ÍBV sitt annað gula spjald og þar með rautt. Manni færri héldu Eyjamenn áfram að sækja en leikurinn opnaðist nokkuð og Selfyssingar áttu einnig hálffæri.

Með sigrinum fer Selfoss í toppsæti riðilsins með 10 stig en leikurinn í dag var síðasti leikur Selfoss í riðlakeppninni. KR er í 2. sæti með 7 stig og þarf sigur gegn Leikni í lokaumferðinni til þess að komast uppfyrir Selfoss.

Fyrri greinRannsókn lokið og gæsluvarðhald framlengt
Næsta greinGunnar Örn skipaður lögreglustjóri