Stórt tap í Laugardalshöllinni

Mílan tapaði stórt þegar liðið mætti Þrótti á útivelli í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 30-18.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Þróttarar náðu fjögurra marka forskoti þegar leið að leikhléi. Staðan var 12-8 í hálfleik.

Heimamenn byrjuðu svo mun betur í síðari hálfleik og voru komnir með sjö marka forskot um miðjan síðari hálfleik, 21-14. Mílan skoraði aðeins fjögur mörk á síðustu fimmtán mínútunum og sigur Þróttara var því öruggur þegar upp var staðið.

Atli Kristinsson var markahæstur hjá Mílunni með 8/3 mörk, Gunnar Ingi Jónsson og Gunnar Páll Júlíusson skoruðu báðir 3 mörk, Ketill Hauksson 2 og þeir Andri Hrafn Hallsson og Jóhann Erlingsson skoruðu sitt markið hvor.

Sverrir Andrésson varði 7/1 skot í marki Mílunnar og Ástgeir Sigmarsson 6.

Mílan er sem fyrr á botni 1. deildarinnar með 3 stig.

Fyrri greinFá launað frí í fjórar vikur fyrir fæðingu
Næsta greinHamar jafnaði eftir framlengdan leik