„Vantaði gífurlega lítið upp á“

Selfoss tapaði 25-26 þegar Afturelding kom í heimsókn í Vallaskóla í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Leikurinn var hnífjafn og spennandi.

Selfoss hefur aðeins náð í tvö stig í deildinni frá áramótum og situr nú í 6. sæti með 18 stig, þremur stigum frá fallsæti.

„Við fórum illa að ráði okkar þegar líður á seinni hálfleikinn en það vantaði gífurlega lítið upp á þetta hjá okkur að fá eitthvað út úr þessum leik. Það var margt gott í leiknum hjá okkur í kvöld og miðað við holninguna á liðinu þá er alveg klárt að við munum ná í fleiri stig ef við höldum áfram á þessari braut,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Hvorugt liðið hafði unnið deildarleik á árinu áður en þau mættust í kvöld og það var ljóst strax í upphafi að það var mikið í húfi. Varnarleikurinn var í hávegum hafður og leikurinn var í járnum allan tímann. Afturelding breytti stöðunni úr 9-8 í 9-12 undir lok fyrri hálfleiks og leiddi 12-13 í hálfleik.

Það var jafnt á nánast öllum tölum í seinni hálfleik upp í 20-20 þegar sextán mínútur voru eftir. Þá kom erfiður kafli hjá Selfyssingum þar sem þeir skoruðu aðeins eitt mark á tólf mínútna kafla. Afturelding skoraði reyndar ekki nema fjögur á sama tíma þannig að staðan var 21-23 þegar fimm mínútur voru eftir. Gestirnir höfðu frumkvæðið á lokamínútunum en leikurinn var hraður og mistökin mörg á báða bóga – fleiri Selfossmegin.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga í dag með 10 mörk. Teitur Örn Einarsson skoraði 6, Hergeir Grímsson og Einar Sverrisson 3, Alexander Egan 2 og Árni Geir Hilmarsson 1. Helgi Hlynsson var frábær í markinu og hélt Selfyssingum inni í leiknum á lokakaflanum. Hann varði 17 skot og Einar Vilmundarson varði eitt vítaskot.

Fyrri greinDásamlegar raw súkkulaði brownies
Næsta greinSigur hjá Þór sem mætir Grindavík í úrslitakeppninni