Hamar í úrslitakeppnina þrátt fyrir tap

Hamar tryggði sér í kvöld sæti í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta þrátt fyrir að tapa104-91 gegn Fjölni á útivelli.

Á sama tíma tapaði Vestri fyrir botnliði Ármanns, 80-77, en þetta var fyrsti sigur Ármenninga á tímabilinu. Þar með var ljóst að Vestri getur aðeins jafnað Hamar að stigum ef Vestri sigrar í tveimur síðustu leikjum sínum. Hamar hefur hins vegar betur í innbyrðis viðureignum og endar í 5. sæti verði liðin jöfn að stigum.

Hvergerðingar stóðu sig vel gegn Fjölni í fyrstu þremur leikhlutunum í kvöld en Fjölnismenn áttu síðasta fjórðunginn og tryggðu sér þar sigurinn. Staðan var 52-53 í hálfleik, og þegar 4. leikhluti var nýhafinn var staðan 76-77. Þá gerðu heimamenn áhlaup og kláruðu leikinn sannfærandi.

Tölfræði Hamars: Christopher Woods 31 stig/14 fráköst, Erlendur Stefánsson 25 stig, Smári Hrafnsson 9 stig, Örn Sigurðarson 8 stig/7 fráköst, Hilmar Pétursson 7 stig/4 fráköst, Rúnar Erlingsson 7 stig/4 fráköst, Oddur Ólafsson 4 stig/7 stoðsendingar.

Fyrri greinMikilvægt stig á Nesinu
Næsta greinHringur með quiz á Kanslaranum