Fjórir Selfyssingar í U21

Fjórir Selfyssingar hafa verið valdir í U21 árs landslið karla í handknattleik sem leikur í undankeppni heimsmeistaramótsins í Serbíu um næstu helgi.

Elvar Örn Jónsson, Hergeir Grímsson og Teitur Örn Einarsson, leikmenn Umf. Selfoss, voru allir valdir til fararinnar en fjórði Selfyssingurinn í hópnum er Ómar Ingi Magnússon, leikmaður Århus håndbold. Ómar Ingi á einnig sæti í A-landsliðinu sem býr sig nú undir þátttöku á HM í Frakklandi.

Átján leikmenn voru valdir í hópinn að þessu sinni en íslenska liðið mætir Serbíu, Litháen og Grikklandi í riðlinum. Liðið sem sigrar í riðlinum fer á HM í Alsír í sumar.

Þess má svo geta í lokin að Jón Birgir Guðmundsson, varaformaður handknattleiksdeildar Selfoss, er sjúkraþjálfari U21 liðsins og verður að sjálfsögðu með í för til Serbíu.

Fyrri greinHöfðingleg gjöf til Landgræðslunnar
Næsta greinÁrgangur 1989 fjölmennastur í Hveragerði