Selfyssingar sannfærandi í seinni hálfleik

Selfyssingar fara kátir inn í jólafríið eftir góðan sigur á Stjörnunni í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Liðin mættust í Garðabæ þar sem lokatölur urðu 26-32.

Stjarnan hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddi með einu til þremur mörkum lengst af. Staðan í hálfleik var 16-14.

Selfyssingar mættu hins vegar af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn og náði forystunni en jafnt var á flestum tölum framan af seinni hálfleiknum. Helgi Hlynsson hrökk svo í gang í markinu um miðjan hálfleikinn og Selfyssingar tóku leikinn yfir í kjölfarið. Stjarnan skoraði aðeins tíu mörk í seinni hálfleik á meðan Selfyssingar léku á alls oddi og kláruðu leikinn mjög sannfærandi.

Elvar Örn Jónsson og Einar Sverrisson skoruðu báðir 7 mörk fyrir Selfoss, Teitur Örn Einarsson 4, Hergeir Grímsson, Sverrir Pálsson og Guðni Ingvarsson 3, Guðjón Ágústsson og Eyvindur Hrannar Gunnarsson 2 og Andri Már Sveinsson 1/1.

Helgi Hlynsson varði 11 skot í marki Selfoss og Einar Vilmundarson 1.

Nú er komið að eins og hálfs mánaðar hléi í deildinni vegna HM sem fram fer í janúar. Mótið hefst aftur í byrjun febrúar. Selfyssingar fara inn í fríið í 5. sæti deildarinnar með 16 stig en Stjarnan er á botninum með 11 stig.

Fyrri greinCarberry með ótrúlegar tölur í öruggum sigri
Næsta greinMargar flottar og kröftugar viðureignir