„Rosalega dauft yfir okkur“

Selfyssingar töpuðu sannfærandi fyrir FH í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, þegar liðin mættust í Vallaskóla. Lokatölur urðu 24-35.

„Það vantaði allan anda í okkur, það var rosalega dauft yfir okkur. Við erum búnir að æfa af miklum krafti á milli leikja en í kvöld var allt loft úr okkur mjög fljótt. Við gerðum ekkert í vörninni og náðum aldrei upp neinni baráttu,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, eftir leik.

Gestirnir réðu lögum og lofum frá upphafsmínútu leiksins og munurinn varð mestur níu mörk í fyrri hálfleik. Varnarleikur Selfyssinga var ótrúlega slakur og gestirnir gengu auðveldlega á lagið. Staðan var 13-22 í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks byrjuðu FH-ingar af krafti og náðu þrettán marka forskoti, 16-29. Í kjölfarið snarhægðist á leiknum og liðin börðust aðallega við það að halda einbeitingu, þar sem úrslitin voru löngu ráðin. Það gekk upp og ofan.

Teitur Örn Einarsson var eini Selfyssingurinn sem lét eitthvað að sér kveða í leiknum. Hann skoraði 10/3 mörk. Hergeir Grímsson skoraði 4 mörk, Elvar Örn Jónsson, Alexander Egan, Einar Sverrisson og Guðni Ingvarsson skoruðu allir 2 mörk og þeir Magnús Öder Einarsson og Andri Már Sveinsson skoruðu sitt markið hvor.

Elvar Örn rauf 100 marka múrinn í deildinni í vetur með fyrra marki sínu en hann er þriðji leikmaðurinn sem skorar yfir 100 mörk í vetur.

Markvarslan var döpur hjá Selfyssingum, enda vörnin léleg. Helgi Hlynsson varði 7 skot og Einar Vilmundarson 4.

Selfyssingar eru í 6. sæti deildarinnar með 14 stig en FH er í 2. sæti með 18 stig.

Fyrri greinOpið hús í Tryggvabúð
Næsta greinSæmundargleði í Gunnarshúsi