Stefán Ragnar framlengir við Selfoss

Miðvörðurinn Stefán Ragnar Guðlaugsson, fyrirliði Selfyssinga í Inkasso-deildinni í knattspyrnu, hefur framlengt samning sinn við félagið út tímabilið 2018.

Stefán Ragnar skrifaði undir tveggja ára samning við Selfoss í fyrra, en með nýja samningnum framlengir hann við félagið til eins árs til viðbótar.

Stefán fór vel af stað með Selfyssingum í sumar en meiddist svo illa á hné í leik gegn Huginn á Seyðisfirði um miðjan júlí. Hann lék ekki meira með Selfyssingum á liðnu tímabili og raunar er óljóst hvenær hann verður kominn af stað aftur.

„Ég fór í aðgerð fyrir fimm vikum og er bara rétt byrjaður í batanum. Þetta var stór áverki og það má kannski segja að þetta hafi farið betur en á horfðist í fyrstu. Menn héldu jafnvel á tímabili að þetta væri bara game over hjá mér, en á einhvern ótrúlegan hátt þá er liðþófinn og brjóskið búið að gróa þannig að þetta lítur betur út núna,“ sagði Stefán Ragnar í samtali við sunnlenska.is.

„Ég veit ekkert hvenær ég kemst af stað, það er einstaklingsbundið, en ég þarf bara að vera duglegur að vinna í þessum málum. Vonandi næ ég að spila eitthvað næsta sumar, en ef ekki þá kem ég bara sterkur inn sumarið 2018,“ sagði Stefán Ragnar ennfremur.

„En ég er ánægður með félagið mitt að fá framlengdan samning þrátt fyrir meiðslin. Ég elska að spila fyrir Selfoss og það er ótrúlega gaman að vera í þessu liði. Gunni Borgþórs er að gera flotta hluti og liðið er á réttri leið þannig að ég vona bara að ég komist inn í þetta aftur og fái að taka þátt,“ sagði Stefán Ragnar að lokum.

Fyrri greinSýningarspjall með Aðalheiði
Næsta greinHamar tapaði heima