Reynsluboltarnir framlengja við Selfoss

Tveir af reynslumestu leikmönnum karlaliðs Selfoss í knattspyrnu, Andy Pew og Ingi Rafn Ingibergsson, hafa framlengt samninga sína við félagið um eitt ár.

Andy kom fyrst á Selfoss sumarið 2006 en hann hefur nú leikið 149 leiki fyrir Selfoss. Þrátt fyrir að vera orðinn 36 ára gamall átti Andy líklega eitt sitt besta sumar í miðvarðarstöðunni í Inkasso-deildinni í sumar. Hann lék 21 leik fyrir Selfoss í sumar í hjarta varnarinnar og var útnefndur leikmaður ársins á lokahófi félagsins.

Ingi Rafn hefur leikið með hléum með Selfossliðinu frá árinu 2002 en hann hefur leikið 203 leiki fyrir Selfoss og skorað í þeim 33 mörk. Ingi Rafn, sem er 33 ára, leikur stöðu sóknarmanns eða sóknartengiliðs en hann spilaði 17 leiki í Inkasso-deildinni í sumar og skoraði fjögur mörk.

Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari karlaliðs Selfoss, segir að þeir félagar séu liðinu mjög mikilvægir enda séu þeir báðir heimamenn og geri allt fyrir félagið sitt og séu yngri leikmönnum fyrirmyndir.

„Þessir tveir reynsluboltar æfa ekki verr en yngstu menn liðsins, þvert á móti, þeir eru hraustir og lausir við meiðsli. Andy spilaði hverja einustu mínútu í öllum leikjum nema einum í sumar. Hann tók við fyrirliðabandinu á miðju sumri, eftir meiðsli Stefáns Ragnars, og steig upp sem leiðtogi bæði innan sem utan vallar. Ingi Rafn er frábær liðsmaður og skilar sínu hlutverki alltaf 100%. Hann var með ótrúlega tölfræði í sumar,“ segir Gunnar.

Fyrri greinLiam Killa ráðinn þjálfari Hamars
Næsta greinBæjarfulltrúar í Árborg afþakka hækkun kjararáðs