Fjórir ungir leikmenn semja við Selfoss

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við fjóra unga leikmenn sem allar hafa skrifað undir tveggja ára samning við félagið.

Þetta eru þær Barbára Sól Gísladóttir, Írena Björk Gestsdóttir, Unnur Dóra Bergsdóttir og Þóra Jónsdóttir.

Barbára, Írena og Þóra voru að skrifa undir sína fyrstu samninga við Selfoss en Unnur Dóra framlengdi samning sem hún skrifaði undir í vor. Eftir því sem næst verður komist eru þær Unnur Dóra og Barbára Sól eru yngstu leikmenn í sögu deildarinnar til þess að skrifa undir samning.

Unnur Dóra er 16 ára sóknarmaður sem steig sín fyrstu spor í meistaraflokki í sumar en hún spilaði tíu leiki fyrir Selfoss í Pepsi-deildinni og skoraði eitt mark. Á lokahófi félagsins var hún útnefnd efnilegasti leikmaðurinn í meistaraflokki kvenna.

Bárbara Sól er 15 ára kantmaður en hún kom inn í æfingahóp meistaraflokks síðla sumars og lék þrjá leiki með liðinu í Pepsi-deildinni undir lok móts. Barbára Sól var valin leikmaður ársins í 3. flokki í sumar.

Írena Björk er 18 ára miðjumaður og var lykilmaður í liði 2. flokks Selfoss í sumar. Auk þess var hún í æfingahópi meistaraflokks og lék tvo leiki með Selfossliðinu í Pepsi-deildinni á nýliðnu tímabili.

Þóra er 18 ára miðjumaður og gegndi einnig lykilhlutverki í sterku liði 2. flokks Selfoss í sumar. Á lokahófi Selfoss var hún útnefnd leikmaður ársins í 2. flokki.

Fyrri greinVex hratt í mörgum ám
Næsta greinDröfn sýnir í Oddsstofu