Öruggur sigur í Krikanum

Selfyssingar eru komnir aftur á sigurbraut eftir þrjú töp í röð í Olís-deild karla í handbolta. Liðið lagði FH örugglega að velli í Kaplakrika í kvöld, 32-36.

„Við höf­um kort­lagt FH-liðið mjög vel og mætt­um klár­ir í slag­inn eft­ir að hafa tapað þrem­ur leikj­um í röð. Við vor­um staðráðnir í að leggja allt í söl­urn­ar að þessu sinni og vild­um sýna mönn­um að við eig­um heima í þess­ari deild. Vissu­lega er ekk­ert gefið en ef við mæt­um af krafti og berj­umst í hverj­um leik þá get­um við gert ým­is­legt,“ sagði Elv­ar Örn Jóns­son í samtali við mbl.is eftir leik.

Selfyssingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og náðu mest níu marka forskoti. Staðan í hálfleik var 11-18. Vörnin var góð hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik og markvarslan fylgdi með.

Í síðari hálfleik héldu Selfyssingar sínu striki fyrstu tuttugu mínúturnar og náðu mest níu marka forskoti, 22-31. Undir lokin náðu FH-ingar að klóra í bakkann en bilið var orðið of mikið fyrir þá til að vinna það upp.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 11 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 7/2, Guðjón Ágústsson 6, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Hergeir Grímsson 3 og þeir Guðni Ingvarsson, Andri Már Sveinsson og Sverrir Pálsson skoruðu allir 2 mörk.

Grétar Ari Guðjónsson varði 12 skot í marki Selfoss, þar af 8 í fyrri hálfleik.

Selfoss er nú í 4. sæti deildarinnar með 6 stig.

Fyrri greinGuðný Salvör fékk smásagnaverðlaun
Næsta greinMyndasýning í tilefni af Guggusundi í 25 ár