Jafntefli lyfti Selfyssingum upp úr fallsæti

Selfoss og Þór/KA skildu jöfn í markalausum leik á JÁVERK-vellinum í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag.

Þrátt fyrir markaleysið var leikurinn fjörugur á rennblautum vellinum á Selfossi. Þór/KA sótti meira og átti mun fleiri marktilraunir en Selfyssingar voru langt í frá varnarsinnaðir og áttu fínar sóknir inn á milli.

Gestirnir voru þó nær því að skora þegar Stephany Mayor átti stangarskot af stuttu færi, en hinu megin átti Unnur Dóra Bergsdóttir hörkuskalla sem markvörður Þórs/KA varði vel.

Varnarlína Selfoss átti góðan dag undir talsverðu álagi en Chanté Sandiford markvörður átti líka mjög góðan leik í marki Selfoss, tók mikilvægar vörslur og greip vel inní inn á milli.

Staðan í botnbaráttunni er mjög jöfn. Fylkir hefur 13 stig í 7. sæti, Selfoss 12 stig í 8. sæti og KR hefur jafnmörg stig í 9. sæti en verra markahlutfall. ÍA er svo á botninum með 8 stig.

Fyrri greinAri Trausti leiðir Vinstri-græna
Næsta greinÁ reynslulausn með hvítt duft og kannabis