Frábær byrjun Selfyssinga

Selfyssingar unnu frábæran 25-32 sigur á Aftureldingu í 1. umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld þegar liðin mættust að Varmá.

„Við erum búnir að æfa vel og erum í toppstandi og við fundum það í klefanum fyrir leik að það var eitthvað að fara að gerast í kvöld. Við vorum að gefa þeim ódýr mörk en um leið og við fórum að þétta vörnina þá röðuðum við inn mörkum úr hraðaupphlaupum og stemmningin óx með því,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við SportTV eftir leik. „Þetta var gamaldags barátta, vinnusemi og fórnfýsi.“

Afturelding leiddi 8-5 eftir fimmtán mínútna leik en þá snerist leikurinn og Selfoss leiddi í hálfleik, 13-15. Í síðari hálfleik voru Selfyssingar mjög sannfærandi og náðu að byggja upp gott forskot. Afturelding átti engin svör og Selfyssingar fögnuðu góðum sigri.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 9/4 mörk, Guðni Ingvarsson skoraði 7, Guðjón Ágústsson 6, Andri Már Sveinsson 3, Einar Sverrisson, Teitur Örn Einarsson og Hergeir Grímsson skoruðu allir 2 mörk og Eyvindur Hrannar Gunnarsson 1.

Grétar Ari Guðjónsson átti frábæran leik í marki Selfoss og varði 18 skot.

Fyrri greinFimmtíu hjúkrunarrými í nýju hjúkrunarheimili á Selfossi
Næsta greinHólmfríðar saga sjókonu