Valorie hætt með Selfossliðið

Valorie O’Brien hefur verið sagt upp störfum sem þjálfara kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu eftir afleitt gengi liðsins í Pepsi-deildinni í sumar.

Adólf Ingvi Bragason, formaður knattspyrnudeildar Selfoss, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is í kvöld en Valorie fylgdist með leik FH og Selfoss í kvöld úr áhorfendastúkunni.

Valorie hefur verið í leikmannahópi Selfoss í þremur af síðustu fjórum leikjum liðsins í deildinni og að sögn Adólfs var henni boðið að halda áfram sem leikmaður en hún afþakkaði það boð.

Guðjón Bjarni Hálfdánarson, sem ráðinn var aðstoðarþjálfari liðsins á miðju sumri, hefur nú tekið við sem þjálfari liðsins. Honum til aðstoðar í þjálfarateyminu eru Gunnar Rafn Borgþórsson og Jóhann Bjarnason, þjálfarar meistaraflokks karla, Elías Einarsson markmannsþjálfari og Hildur Grímsdóttir sjúkraþjálfari.

„Við erum Selfossfjölskyldan og við ætlum að klára þetta saman,“ sagði Guðjón Bjarni í samtali við sunnlenska.is eftir leikinn gegn FH í kvöld en hann og Gunnar stýrðu liðinu á hliðarlínunni.

Selfoss varð í 3. sæti í Pepsi-deildinni í fyrra en gengi liðsins hefur ekki verið gott í sumar og er liðið í fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

Fyrri greinGöngukona fannst eftir stutta leit
Næsta greinHermann Ólafsson: Samgöngur og ferðaþjónusta