Selfyssingum tókst ekki að skora – KA upp

Selfoss heimsótti KA í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag. KA vann 1-0 og tryggði sér sæti í Pepsi-deildinni að ári.

Fyrri hálfleikur var fjörugur, en færin ekki mörg. Besta færið fékk Ingi Rafn Ingibergsson á lokamínútu hálfleiksins þegar hann skaut framhjá úr prýðilegu færi. Í upphafi seinni hálfleiks fékk svo Arnór Gauti Ragnarsson gott færi en tókst ekki heldur að skora.

KA jók pressuna um miðjan seinni hálfleikinn en Selfyssingar áttu góða spretti inn á milli. Ísinn var loks brotinn á 78. mínútu þegar Ásgeir Sigurgeirsson fékk boltann í vítateignum, sneri á varnarmenn Selfoss og skoraði framhjá Vigni Jóhannessyni.

Eftir markið fjaraði leikurinn nokkuð út og Selfyssingum tókst ekki að skapa sér færi á því að jafna.

Selfoss hefur nú 23 stig í 8. sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir. Næsti leikur liðsins er gegn Fram á heimavelli, næstkomandi föstudag kl. 17:30.

Fyrri greinSigur í sex stiga leik – KFR tapaði
Næsta greinFjórar efnilegar í leikmannahóp Selfoss