Grátlegt tap gegn KR

Staða Selfyssinga í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu versnaði enn í kvöld þegar liðið tapaði fyrir botnliði KR á JÁVERK-vellinum á Selfossi, 0-1.

Leikurinn var jafn framan af en þegar leið á fyrri hálfleikinn tóku Selfyssingar öll völd á vellinum, án þess þó að þeim tækist að skapa almennileg færi. Það var því þvert gegn gangi leiksins að KR komst yfir á 31. mínútu með marki eftir skyndisókn. Ásdís Halldórsdóttir potaði knettinum í netið eftir mistök Chanté Sandiford í marki Selfoss.

Staðan var 0-1 í hálfleik og bæði lið byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti. Þegar leið á leikinn fóru KR-ingar að verja forystuna og sóknir Selfoss þyngdust. Færin voru samt ekki mörg en Sharla Passariello fékk besta færið á 68. mínútu þegar hún skaut framhjá af stuttu færi fyrir opnu marki. Í uppbótartíma fór svo boltinn í þverslána á marki KR eftir að hafa haft viðkomu á höfði varnarmanns gestanna. Nær komust Selfyssingar ekki og grátlegt tap staðreynd.

Selfoss er með 10 stig í 8. sæti deildarinnar og þar á eftir koma KR með 9 stig og ÍA með 8 stig. Ef ekki á illa að fara þurfa Selfyssingar nauðsynlega að ná í sigur í einhverjum af síðustu fjórum leikjunum þar sem KR og ÍA eiga eftir að mætast innbyrðis í lokaumferðinni. Næsti leikur Selfoss er gegn FH á útivelli en FH hefur tapað síðustu tveimur leikjum og er í 7. sætinu, fyrir ofan Selfoss með 13 stig.

Fyrri greinSamstarf við Landsbankann endurnýjað
Næsta greinÞyrla sótti slasaða göngukonu