Hamar valtaði yfir toppliðið

Hamar vann öruggan sigur á toppliði KH í D-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu á Grýluvelli í kvöld.

Hamarsmenn léku á alls odds í fyrri hálfleik og komust í 4-0. Ágúst Örlaugur Magnússon kom þeim yfir á 7. mínútu en síðan bættu Tómas Hassing, Oddur Hólm Haraldsson og Sverrir Þór Garðarsson við mörkum.

KH klóraði í bakkann á 32. mínútu en Hrannar Einarsson bætti við fimmta marki Hamars á 40. mínútu. Markaveislan í fyrri hálfleik var ekki búin því KH lokaði hálfleiknum á marki og staðan var 5-2 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn var mun rólegri en Tómas Hassing bætti við öðru marki sínu á 62. mínútu og KH minnkaði muninn í 6-3 þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum.

Þessi frábæru úrslit Hamars breyta reyndar ekki neinu um stöðu toppliðanna. KH er í toppsætinu með 37 stig en Hamar er í 2. sæti með 33 stig en fyrir leikinn höfðu bæði lið tryggt sér sæti í úrslitakeppninni.

Fyrri grein„Nýja staðsetningin breytir öllu“
Næsta greinRjómatertukast á Kjötsúpuhátíð