„Viljum skapa gott umhverfi fyrir unga leikmenn“

Selfossbær iðar af spenningi vegna leiks Selfoss og Vals í undanúrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum kl. 19:15 í kvöld.

Selfoss komst síðast í undanúrslit árið 1969 og lék þá gegn Íþróttabandalagi Akureyrar á Melavellinum.

Adólf Ingvi Bragason, formaður knattspyrnudeildar Selfoss, segir að það verði skemmtilegt en krefjandi verkefni sem mæti ungu liði Selfoss í kvöld.

„Við höfum sett okkur þá stefnu að vera félag sem gefur ungum leikmönnum tækifæri og höfum verið mjög ánægðir með spilamennskuna hjá liðinu það sem af er sumri. Liðið er í 6. sæti í Inkasso deildinni og hefur vakið athygli fyrir að spila mörgum ungum leikmönnum. Af átján manna leikmannahópi eru tíu uppaldir leikmenn,“ segir Adólf, en stærsti hluti leikmanna liðsins hefur farið í gegnum Knattspyrnuakademíu Íslands sem starfrækt er í Fjölbrautaskóla Suðurlands.

„Leikmenn akademíunnar koma allstaðar að af landinu og stunda nám í skólanum ásamt því að æfa knattspyrnu fyrri hluta dags. Það var sérstaklega sætt að sjá ungan nemanda, Arnar Loga Sveinsson 19 ára gamlan dreng frá Þorlákshöfn, skora sigurmarkið í framlengingu gegn KR í sextán liða úrslitum,“ segir Adólf. Sigurinn í Frostaskjólinu var eftirminnilegur, en auk þess hefur Selfoss slegið út Njarðvík, Víði Garði og Fram á leið sinni í undanúrslitin.

Adólf segir að það sé draumurinn að geta hlúð að grasrótinni og skapað gott umhverfi á Selfossi fyrir unga drengi og stúlkur til að bæta sig í fótbolta. „Við eigum að að nýta okkur velgegni íslenska landsliðsins, nýta okkur þann góða meðbyr sem er í samfélaginu okkar og styðja þetta unga fólk sem vill ná lengra. Ég vona að Selfyssingar og nærsveitamenn fjölmenni á völlinn í kvöld og styðji við bakið á liðinu sínu.“

Fyrri greinReiðarslag fyrir Þorlákshöfn
Næsta greinBíll gjöreyðilagðist í eldi