„Þær áttu þessi stig skilið“

Kvennalið Selfoss fékk skell þegar liðið heimsótti Val í Pepsi-deildinni að Hlíðarenda í kvöld. Lokatölur urðu 5-0.

„Við fengum á okkur þrjú mörk úr föstum leikatriðum sem er ekki boðlegt, það var meiri gredda í þeim og þær áttu þessi stig skilið,“ sagði Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Selfoss hefur haft fínt tak á Valsliðinu undanfarið en í kvöld áttu þær aldrei séns. „Þetta hafa alltaf verið jafnir leikir gegn Val, þangað til núna, þá skitum við,“ sagði Guðmunda.

Valskonur mættu mun grimmari til leiks og komust yfir strax á 12. mínútu. Eftir það var ljóst í hvað stefndi, Selfossliðinu gekk illa að verjast og Valur bætti við tveimur mörkum undir lok fyrri hálfleiks, 3-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum. Valskonur höfðu yfirhöndina og bættu við tveimur mörkum, á 66. og 83. mínútu.

Selfoss hefur 9 stig í 8. sæti deildarinnar en Valsliðið er komið með 17 stig og stimplaði sig inn í toppbaráttuna með sigrinum í kvöld.

Fyrri greinBúið að staðsetja manninn í ánni
Næsta greinÖruggur sigur Hamars – Árborg og Stokkseyri fengu stig