„Hefðum átt að ná öðru marki í lokin“

Knattspyrnulið Selfoss og Fram mættust í annað sinn í þessari viku í kvöld á Laugardalsvellinum, nú í 1. deild karla. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

„Við vildum fá sigur úr þessum leik og við lágum mjög mikið á þeim síðustu 20 mínúturnar og hefðum átt að ná öðru marki þar,” sagði Stefán Ragnar Guðlaugsson, fyrirliði Selfyssinga, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

„Við vorum fyrstu 20 mínúturnar ekki að finna neinar leiðir og vorum bara í tómu tjóni. Við vorum ekki að ná að spila boltanum og vorum að missa hann klaufalega. Við ákváðum í hálfleik að halda því bara áfram og ná aðeins hærra upp á völlinn og koma boltanum í boxið. Mér fannst það ganga vel í seinni hálfleik.“

Fram komst yfir á 23. mínútu eftir klaufaleg mistök í vörn Selfoss og staðan var 1-0 í hálfleik. Selfyssingar hresstust töluvert í síðari hálfleik og á 76. mínútu náði Teo Garcia að skora gott mark eftir sendingu frá Pachu.

Þrátt fyrir ágætar tilraunir í lokin tókst Selfyssingum ekki að knýja fram sigur, og liðin skiptu með sér stigunum.

Selfoss er í 8. sæti deildarinnar með 11 stig en Fram í 6. sætinu með 13 stig.

Fyrri grein„Vorum ekki að spila sem lið“
Næsta greinKvaðir á frekari framleiðslu