„Vorum ekki að spila sem lið“

Kvennalið Selfoss tapaði 3-0 þegar liðið heimsótti Þór/KA á Akureyri í kvöld. Með sigrinum fór Þór/KA upp fyrir Selfoss, í 4. sætið en Selfoss er í 6. sæti.

„Það eru auðvitað vonbrigði að ferðast svona langt og koma til baka með ekkert en það voru jákvæðir hlutir þarna líka,“ sagði Valorie O´Brien, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik. „Við vorum ekki að spila sem lið í þessum leik og það er eitthvað sem við þurfum að vinna í.“

Aðspurð um stemminguna í hópnum sagði Valorie: „Auðvitað viljum við ekki tapa en við höldum höfðinu uppi og við erum ennþá að reyna spila góðan fótbolta. Þetta er ekki búið.“

Þór komst yfir strax á 2. mínútu með marki frá Söndru Gutierrez, eftir langa sendingu innfyrir. Gutierrez bætti svo við öðru marki á 23. mínútu en í millitíðinni höfðu bæði lið fengið færi. Selfyssingar voru öflugri á lokakafla fyrri hálfleiks en tókst ekki að skora, 2-0 í hálfleik.

Leikurinn var í öruggum höndum Þórsara í síðari hálfleik, en þeim tókst þó ekki að bæta við marki fyrr en fimm mínútur voru eftir af leiknum. Þar var að verki Natalia Esteva, eftir mjög góða sókn.

Selfoss hefur nú 9 stig í 6. sæti deildarinnar, en Þór/KA er í 4. sætinu með 11 stig.

Fyrri greinÁrborg skoraði ellefu mörk
Næsta grein„Hefðum átt að ná öðru marki í lokin“