Selfyssingar kafsigldir í bikarnum

Kvennalið Selfoss er úr leik í Borgunarbikarnum í knattspyrnu eftir stórtap gegn ÍBV, 5-0 á Hásteinsvelli í dag, í 8-liða úrslitum.

„Þær mættu til leiks og voru ákveðnari að vinna þennan leik,“ sagði Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik. „Við ætluðum að spila hart á þér, það hefur alltaf virkað á ÍBV. Það var eiginlega bara akkúrat það sem þær gerðu og það skilaði þeim góðum sigri. Það er svolítið erfitt að koma til baka úr 3-0, en mér fannst við koma betur inn í seinni hálfleikinn þótt það hafi endað 5-0.“

ÍBV var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Rebekah Bass kom þeim yfir á 24. mínútu. Cloe Lacasse bætti svo við tveimur mörkum undir lok fyrri hálfleiks, á 41. og 45. mínútu þannig að staðan var 3-0 í hálfleik.

Selfyssingar spiluðu betur í síðari hálfleik en það kom ekki í veg fyrir að ÍBV bætti við tveimur mörkum. Lacasse innsiglaði þrennuna á 57. mínútu og Sigríður Lára Garðarsdóttir gerði endanlega út um leikinn á 80. mínútu. Erna Guðjónsdóttir skaut í stöngina á marki ÍBV á lokamínútunni en nær komust Selfyssingar ekki að skora.

Selfyssingar eru því úr leik eftir að hafa komist í úrslitaleikinn undanfarin tvö ár.

Fyrri greinAlltaf þörf á renniverkstæðum
Næsta greinBryggjuhátíðinni aflýst – söfnunarreikningur stofnaður