„Sáum ekki Inga þegar hann skoraði“

Selfyssingar kræktu í dýrmætt stig í kvöld þegar liðið mætti toppliði Grindavíkur á útivelli í 1. deild karla í knattspyrnu.

„Ég myndi segja að þetta hafi verið sanngjörn úrslit í leiðinda leik. Veðrið hafði mikil áhrif, við þeir voru meira með boltann í fyrri hálfleik og við í seinni hálfleik,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfyssinga, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Það var mjög gott að ná í stigið á síðustu mínútunum gegn einu sterkasta liðinu í deildinni á mjög sterkum útivelli. Þetta sýnir að við gefumst aldrei upp og ætlum okkur að fá eitthvað út úr öllum leikjum,“ sagði Gunnar og hrósaði varamönnunum sem komu inná í leiknum.

„Skiptingarnar voru allar mjög góðar og við sáum ekki Inga þegar hann skoraði jöfnunarmarkið, hann hljóp svo hratt. Dugnaðurinn á æfingunum er að skila sér hjá honum.“

Grindvíkingar komust yfir á 20. mínútu og leiddu 1-0 í hálfleik. Seinni hálfleikur var markalaus í rúmar 45 mínútur og stefndi allt í heimasigur, þangað til Ingi Rafn Ingibergsson jafnaði á þriðju mínútu uppbótartíma eftir góðan sprett.

Selfoss er í 7. sæti deildarinnar með 10 stig, en Grindavík er í toppsætinu með þremur stigum meira.

Fyrri grein„Við mættum einfaldlega ekki til leiks“
Næsta greinStórsigur Stokkseyringa – Ægir tapaði