Svavar og Hilmir áfram heima

Svavar Ingi Stefánsson og Hilmir Ægir Ómarsson munu leika með körfuknattleiksliði FSu í 1. deildinni á næstu leiktíð. Þetta staðfestu þeir með undirritun leikmannasamninga í síðustu viku.

Í tilkynningu frá FSu segir að þessi tíðindi séu gleðileg, ekki síst vegna þess að báðir leikmennirnir koma upp úr yngriflokkastarfi og Akademíu félagsins og hafa haldið tryggð við félagið alla tíð.

Svavar Ingi er á 22. ári, skagar 205 sm upp til himins og leikur jafnt stöðu miðherja og framherja. Þrátt fyrir ungan aldur á hann að baki mörg ár í meistaraflokksliði félagsins, er nú að hefja sitt sjötta tímabil, og er því einn af reyndustu leikmönnum liðsins. Svavar er liðinu mikilvægur í teignum en að auki er hann skeinuhættur utan þriggja stiga línunnar og hefur af þeim sökum í gegnum tíðina reynst mörgum andstæðingnum óþægur ljár í þúfu. Hann undirbýr sig nú af krafti fyrir komandi átök, nýjar áherslur og áskoranir undir stjórn nýs þjálfara.

Hilmir Ægir er 18 ára, 190 sm. bakvörður sem kom inn í meistaraflokkinn á síðastliðnu tímabili og gegndi stöðugt mikilvægara hlutverki í leikmannahópnum eftir því sem á leið og meiðsli hjuggu stór skörð í hópinn. Hilmir spilaði stóra rullu í unglingaflokksliði félagsins, sem lék í vor til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn, og sýndi í mörgum leikja liðsins ótvírætt fram á að hann er gott efni í framtíðarmann. Hilmir var verðlaunaður á lokahófi félagsins í maí síðastliðnum af þjálfara unglingaflokks fyrir „besta viðhorfið“ meðal leikmanna. Hann er fjölhæfur bakvörður og með rétta viðhorfið í farteskinu mun Hilmir án nokkurs vafa eiga eftir að setja mark sitt á leik FSU-liðsins í 1. deild karla á komandi keppnistímabili.

Fyrri greinHalldóra nýr oddviti Hrunamanna
Næsta greinGöngufólk í hrakningum á Laugaveginum