Metþátttaka í Frjálsíþróttaskóla UMFÍ

Um þessar mundir er Frjálsíþróttaskóli UMFÍ í fullum gangi á Selfossi.

Alls eru 61 nemandi í skólanum, sem er metþátttaka. „Uppselt var í skólann mánuði áður en skólinn byrjaði. Þetta er sami fjöldi og í fyrra og þá var það fjölmennasti Frjálsíþróttaskóli UMFÍ frá upphafi,“ segir Fjóla Signý Hannesdóttir, einn af umsjónarmönnum skólans.

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ er haldinn víðsvegar á landinu. Er þetta 8. árið sem skólinn er haldinn á HSK svæðinu en hann er haldinn samstarfi við UMFÍ. Skólinn er ætlaður fyrir börn á aldrinum 11 til 18 ára.


Ljósmynd Fjóla Signý Hannesdóttir.

„Við erum búin að vera ótrúlega heppin með veður sem gerir skemmtilegan skóla enn skemmtilegri. Við erum með frábæra og duglega krakka og þetta hefur allt gengið ótrúlega vel,“ segir Fjóla Signý en hún ásamt Ágústu Tryggvadóttur hafa yfirumsjón með skólanum.


Ljósmynd Fjóla Signý Hannesdóttir.

„Krakkarnir eru yndislegir og það gefur okkur mjög mikið að sjá hvað krakkarnir eru ánægðir með skólann. Það er einhver ástæða fyrir því að þeir koma aftur ár eftir ár,“ segir Fjóla Signý og bætir því við að það sé orðinn skemmtilegur fastur liður hjá henni að verja hluta af sumrinu með krökkunum.

„Áhersla er á að krakkarnir fái að kynnast frjálsíþróttum ásamt því að að fara í leiki. Einnig eru haldnar kvöldvökur, farið í sund á hverjum degi, í bíó og ýmislegt fleira,“ segir Fjóla Signý.


Ljósmynd Jóhanna S.H.

Fjóla segir að þátttaka fyrirtækja á svæðinu skipti miklu máli. „Kostnaðinum við skólann er haldið í lágmarki þökk sé styrkjum frá fyrirtækjum. Við gætum ekki gert þetta án aðstoðar þeirra og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Einnig skiptir máli allt það góða fólk sem aðstoðar okkur með skólann,“ segir Fjóla að lokum.

Skólanum lýkur svo með frjálsíþróttamóti næstkomandi fimmtudag.

Fyrri greinMetþátttaka í sumarlestri
Næsta greinHestakona slasaðist við Þríhyrning