„Augnablikið var með okkur í lokin“

Lauren Hughes var besti leikmaður Selfoss í sigurleiknum gegn Val í bikarkeppninni í kvöld. Hún skoraði tvívegis í magnaðri endurkomu Selfoss, og var að sjálfsögðu ánægð með úrslitin.

„Þetta var æsispennandi leikur. Það var gaman að sjá hvernig við komum til baka og við börðumst fyrir hverja aðra. Augnablikið var með okkur í lokin, og við þurftum á þessu að halda því við höfum ekki unnið svona „stóran“ sigur í sumar. Frábært að ná þessu í fyrsta bikarleik sumarsins og halda áfram í keppninni,“ sagði Hughes í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Uppskriftin að sigrinum var nákvæmlega sú sama og gegn Val í undanúrslitunum í fyrra, 3-2 sigur með marki í uppbótartíma eftir að hafa lent 0-2 undir. Hughes kannaðist við þessa sögu. „Já, stelpurnar voru búnar að segja mér frá þessu. Þetta sýnir bara karakterinn í liðinu og sigurviljann hjá okkur. Þannig að þetta var frábært og gaman að ná að endurtaka leikinn.“

Selfossliðið var ekki sannfærandi í fyrri hálfleik og framherjinn kanadíski var sammála því.

„Við vorum kannski aðeins stressaðar í upphafi og náðum ekki að sýna okkar rétta andlit í fyrri hálfleik. Það er langt síðan við spiluðum síðasta leik, þannig að það var eitthvað óöryggi í upphafi, fyrsti bikarleikur sumarsins og andstæðingurinn sterkur. Við fórum vel yfir hlutina í leikhléinu og fórum aftur að spila okkar leik í seinni hálfleik,“ sagði Hughes, sem skoraði tvívegis undir lok leiksins. Síðara markið var beint úr aukaspyrnu utan af velli.

„Fyrra markið, ég veit ekki hvað gerðist eiginlega, en ég slapp í gegn og náði að klára. Í aukaspyrnunni þá miðaði ég ekki á markið, ég ætlaði að reyna að hitta á samherja en ég held að Magda hafi hlaupið fyrir markmanninn og náð að trufla hana þannig að boltinn fór í gegn og í netið.“

Hughes hljóp mikið í leiknum og með góðu vinnuframlagi uppskar hún tvö mörk. Hún segist hafa tekið tvo leikmenn karlaliðs Selfoss sér til fyrirmyndar.

„Hvað sjálfa mig varðar þá fylgdist ég með karlaliðinu í bikarleiknum gegn Víði og ég dáðist að vinnuframlaginu hjá Teo og Gauta,“ segir Hughes og á þar við Teo Tirado og Arnór Gauta Ragnarsson. „Þegar ég varð mjög þreytt í dag þá hugsaði ég að ég vildi leggja jafn hart að mér og þeir, sýna sama vinnuframlag og Teo og sama styrk og Gauti, og það kom mér í gegnum leikinn í kvöld. Við börðumst í gegnum þetta og ég skoraði tvö mörk þannig að ég er mjög ánægð.“

Fyrri greinCopy/paste: Ótrúlegur bikarsigur Selfosskvenna
Næsta greinStokkseyri gerði góða ferð vestur