Selfoss fékk Víði heima

Karlalið Selfoss í knattspyrnu fær heimaleik gegn Víði Garði í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins í knattspyrnu. Dregið var í hádeginu í dag.

„Við vorum að tala um það yfir heiðina áðan að það væri flott að fá heimaleik á móti annað hvort FH, stærsta liðinu í pottinum, eða Víði þar sem mestu líkurnar eiga að vera gegn þeim ef við erum raunsæir,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net. Gunnar er mikill bikarmaður og viðurkennir það fúslega. „Það er gaman að gera hefð í kringum þetta, dressa sig upp, fá gott að borða og svona,“ sagði Gunnar léttur.

Selfoss kom á undan upp úr pottinum og fékk því heimaleik en Stefán Ragnar Guðlaugsson, fyrirliði Selfoss, dró andstæðinginn og komu Víðismenn þar upp.

Selfoss sigraði KR eftirminnilega í 32-liða úrslitunum en Víðir, sem leikur í 3. deildinni, lagði Sindra frá Hornafirði að velli.

Leikur liðanna verður á JÁVERK-vellinum fimmtudaginn 9. júní.

Selfoss og Víðir hafa fjórum sinnum mæst í bikarkeppni karla í knattspyrnu, Selfoss vann tvo leikjanna og Víðir tvo. Síðast mættust liðin í bikarkeppninni árið 1990, en lengi vel léku þau saman í 2. deildinni undir lok síðustu aldar og í upphafi þessarar.

Leikirnir í 16-liða úrslitum:

  • Víkingur R. – Valur
  • Stjarnan – ÍBV
  • Vestri – Fram
  • Þróttur R. – Grótta
  • Grindavík – Fylkir
  • Selfoss – Víðir
  • FH – Leiknir R.
  • ÍA – Breiðablik
Fyrri greinGrýlupottahlaup 5/2016 – Úrslit
Næsta grein80 ára afmælishátíð Umf. Selfoss á laugardag