Lo og Eva sáu um Skagann

Selfoss lyfti sér upp í 3. sæti Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu með góðum 0-2 sigri á ÍA á Akranesi í kvöld.

Leikurinn átti að fara fram á Norðurálsvellinum en mjög hvasst var á Skipaskaga þannig að leikurinn var færður inn í Akraneshöllina.

Selfyssingar kunnu vel við sig innan dyra en bæði lið áttu færi í fyrri hálfleik áður en Lauren Hughes kom Selfyssingum yfir á 29. mínútu.

Staðan var 0-1 í hálfleik en Eva Lind Elíasdóttir bætti svo öðru marki við fyrir Selfoss á 73. mínútu og tryggði Selfyssingum 0-2 sigur.

Með sigrinum lyfti Selfoss sér upp í 3. sæti deildarinnar með 6 stig að loknum þremur umferðum.

Næsti leikur Selfoss er á heimavelli á laugardag þegar Íslandsmeistarar Breiðabliks koma í heimsókn. Blikar eru einu sæti neðar en Selfyssingar á töflunni með 5 stig.

Fyrri greinSamið um söfnun og nýtingu seyru
Næsta greinSebastian framlengir – Árni Steinn ráðinn sjúkraþjálfari