„Jafnara en lokatölurnar gefa til kynna“

Selfoss tók á móti Stjörnunni í Pepsi-deild kvenna á JÁVERK-vellinum í kvöld. Lokatölur urðu 1-3 þar sem DK Henry, fyrrum leikmaður Selfoss, fór mikinn í liði Stjörnunnar.

„Lokatölurnar gefa ekki rétta mynd af frammistöðu okkar í leiknum. Við skoruðum gott mark og fengum góð marktækifæri, þetta var jafnara en lokatölurnar gefa til kynna. Við gerðum marga góða hluti og ég er stolt af liðinu en við þurfum að halda einbeitingu í 90 mínútur og við þurfum að verjast betur en við gerðum á köflum,“ sagði Valorie O’Brien, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „En nú er þetta verkefni búið og við förum að einbeita okkur að næsta leik. Þar ætlum við að halda áfram að safna stigum.“

Leikurinn fór rólega af stað en þegar leið á fyrri hálfleikinn þyngdust sóknir Stjörnunnar. Harpa Þorsteinsdóttir kom þeim yfir á 34. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar náði Guðmunda Óladóttir að jafna fyrir Selfoss með góðu skoti úr teignum eftir frábæran undirbúning hjá Karitas Tómasdóttur.

Selfyssingar voru líklegri til þess að bæta marki undir lok fyrri hálfleiks en tókst það ekki og staðan var 1-1 í hálfleik.

Það var fátt um færi í seinni hálfleik en Stjörnukonur björguðu þó á línu frá Magdalenu Reimus áður en þær komust í 1-2 á 61. mínútu. Donna-Key Henry var allt í öllu í sóknarleik Stjörnunnar, lagði upp mark númer tvö og skoraði svo þriðja markið í uppbótartíma. Selfyssingum tókst ekki að brjóta vörn Stjörnunnar á bak aftur á lokakaflanum og því fór sem fór.

Selfoss hefur þrjú stig í deildinni eftir tvo leiki og mætir næst ÍA á útivelli á þriðjudaginn í næstu viku.

Fyrri greinFyrsta skóflustungan að eldfjallamiðstöðinni
Næsta greinÁrborg og Hamar unnu sína leiki