„Hringdu í mig seinni partinn á morgun“

„Í kvöld var þetta bara eins og leikirnir eru búnir að vera á milli þessara liða, stál í stál. Þetta gat lent báðu megin eins og allir þessir leikir, en á síðustu tíu mínútunum brotna þeir og við göngum á lagið.“

Þetta sagði Þórir Ólafsson í samtali við sunnlenska.is eftir að Selfoss tryggði sér sæti í efstu deild með frábærum sigri á Fjölni í oddaleik, 24-28. Þórir kom aftur á Selfoss í haust og var ráðinn formaður fagráðs deildarinnar. Eftir áramót tók hann svo fram skóna aftur og lagði liðinu lið í síðustu leikjunum.

„Ég er gríðarlega ánægður með þetta. Strákarnir eru búnir að vinna fyrir þessu, þeir eru búnir að æfa eins og ég veit ekki hvað í allan vetur, lyfta og hlaupa, vera skynsamir í mataræði og öllu og þeir eru bara að uppskera eins og þeir eru búnir að sá,“ sagði Þórir.

Hann hefur unnið titla bæði á Íslandi og erlendis, farið með landsliðinu á stórmót og upplifað margt í boltanum. Kvöld eins og þetta sé samt sérstakt. „Já, þetta er allt öðruvísi. Stemmningin í húsinu var frábær og við erum að ná þessum áfanga fyrir framan okkar fólk,“ segir Þórir og er ánægður með að hafa fengið að leggja sitt af mörkum til síns heimaliðs.

„Ég fékk þetta tækifæri núna að aðstoða liðið í þessari baráttu og ég vona bara að ég hafi skilað mínu. Selfosshjartað er stórt, liðið er komið upp og ég er gríðarlega ánægður að enda þetta með uppeldisfélaginu, þar sem ég byrjaði.“ Hvað meinarðu? Þú ert ekkert hættur, það er Olís á næsta ári? „Hringdu í mig seinni partinn á morgun og athugaðu hvernig skrokkurinn minn er,“ sagði Þórir léttur að lokum.

Fyrri grein„Við áttum þetta hús“
Næsta grein„Það var ekki hægt annað en að dansa með þeim“