„Grátlegt að hafa ekki unnið“

Selfyssingar standa illa að vígi þegar tveimur leikjum er lokið í rimmunni gegn Fjölni um laust sæti í efstu deild karla í handbolta. Selfoss tapaði leik tvö á heimavelli í kvöld, 20-23.

„Grátlegt að hafa ekki unnið leikinn miðað við frammistöðuna okkar fyrstu 40 mínúturnar. Við vorum að spila frábæran varnarleik og lengst af frábæran sóknarleik líka. Við vorum að fá fær, þó að við værum að fara illa með þau á köflum. Þegar þú nýtir ekki færin þín og andstæðingurinn er ekki lengra frá þér en eitt, tvö, þrjú mörk, þá geta hlutirnir verið fljótir að breytast,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Okkur vantaði klókindi varnarlega þegar leið á leikinn og við vorum að fá allt of mikið af brottvísunum. Fyrir vikið ná þeir að búa til smá mun og þá urðum við örvæntingarfullir. Við verðum að draga einhverja ása fram úr erminni í næsta leik. Það er engin ástæða til að gefast upp þegar við erum að sýna það á löngum köflum að við erum sterkari en þeir. Það hefur vantað þennan herslumun síðasta korterið og við þurfum að finna leiðir til að leysa það.“

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar og lítið skorað. Selfyssingar tóku svo frumkvæðið og náði tveggja marka forystu, 5-3, en Fjölnismenn jöfnuðu fljótlega, 6-6. Þá kom góður kafli hjá Selfyssingum og þeir náðu þriggja marka forskoti sem þeir héldu nokkurn veginn fram að leikhléi. Staðan var 11-8 í hálfleik.

Selfoss náði ekki að skora mark á fyrstu rúmlega átta mínútum síðari hálfleiks og Fjölnir náði að jafna 11-11. Þá loksins fóru þeir vínrauðu að nýta færin og náðu tveggja marka forskoti í kjölfarið. Stöðugleikann vantaði hins vegar og Fjölnir svaraði fyrir sig með 1-6 kafla og staðan skyndilega orðin 14-17. Eftirleikurinn var Selfyssingum erfiður. Þeir eltu Fjölni til leiksloka og náðu að minnka muninn í eitt mark, en voru mislagðar hendur í sókninni á lokakaflanum.

Lokatölur 20-23 og Fjölnismenn yfir í einvíginu, 2-0. Selfyssingar eru komnir með bakið upp að vegg og verða að vinna næsta leik til þess að koma sér inn í einvígið aftur, annars eru Fjölnismenn komnir upp um deild.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk. Fjölnismenn réðu ekkert við hann í fyrri hálfleik, þar sem hann skoraði fimm mörk. Hergeir Grímsson skoraði 4, Andri Már Sveinsson 4/2, Elvar Örn Jónsson og Þórir Ólafsson 2 og þeir Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Atli Kristinsson skoruðu sitt markið hvor.

Birkir Fannar Bragason varði 17/1 skot í marki Selfoss og var með 42,5% markvörslu.

Þriðji leikur liðanna er í Dalhúsum í Grafarvogi kl. 19:30 á föstudagskvöld.

Fyrri greinNý stjórn Mílunnar – Birgir orðinn forseti
Næsta greinLeitað að vitnum að umferðarslysi