Selfoss mætir Gróttu í úrslitakeppninni

Selfoss vann nokkuð öruggan sigur á FH í lokaumferð Olísdeildar kvenna í handbolta í kvöld, 26-23 í Vallaskóla.

Eftir leiki kvöldsins er það ljóst að Selfoss mætir Gróttu í 8-liða úrslitum deildarinnar. Grótta hefur heimaleikjaréttinn en liðið sem fyrr vinnur tvo leiki í einvíginu kemst í undanúrslit. Fyrsti leikurinn verður á Seltjarnarnesi þann 13. apríl og leikur tvö á Selfossi 16. apríl. Komi til oddaleiks verður hann á Seltjarnarnesi þann 18. apríl.

Selfoss hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik í leiknum gegn FH í kvöld. Staðan var 16-14 í hálfleik en FH náði að jafna, 18-18, í upphafi síðari hálfleiks. Þá tóku Selfyssingar sig á og juku forskotið aftur.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 11 mörk, Elena Birgisdóttir og Adina Ghidoarca skoruðu 4 mörk, Carmen Palamariu 3 og Kristrún Steinþórsdóttir og Perla Albertsdóttir skoruðu 2 mörk hvor.

Fyrri greinSigurður Ingi næsti forsætisráðherra
Næsta greinAfhendir Flóahreppi eignarhluti sína í félagsheimilunum