Siglt eftir góðu stigi til Eyja

Kvennalið Selfoss krækti í gott stig þegar liðið heimsótti ÍBV til Vestmannaeyja í Olís-deildinni í handbolta í dag. Lokatölur eftir spennuleik urðu 28-28.

Leikurinn var jafn fyrstu tuttugu mínúturnar. Staðan var þá 9-8, en í kjölfarið náði ÍBV fjögurra marka forskoti, 14-10. Selfoss minnkaði hins vegar muninn í tvö mörk fyrir leikhlé, 15-13.

Selfoss skoraði fyrstu þrjú mörkin í seinni hálfleik og komst yfir, 16-16. Eftir það var leikurinn hnífjafn og æsispennandi.

Þegar tvær mínútur voru eftir var staðan jöfn, 27-27. ÍBV komst yfir í kjölfarið, 28-27, og Selfyssingar fengu tvær tilraunir til að jafna leikinn en það mistókst. ÍBV var með boltann þegar tuttugu mínútur voru eftir og möguleiki á stigi virtist vera að renna Selfyssingum úr greipum.

Adina Ghidoarka stal þá boltanum af Eyjamönnum og brunaði fram og jafnaði 28-28 þegar fimm sekúndur voru eftir af leiknum. ÍBV tók leikhlé og náði skoti á markið á lokasekúndunni sem Katrín Ósk Magnúsdóttir, markvörður Selfoss varði. ÍBV fékk þá aukakast, þegar leiktíminn var liðinn, og Vera Lopes þrumaði boltanum í andlitið á leikmanni Selfoss í varnarveggnum og uppskar réttilega rautt spjald.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 12/4 mörk. Adina Ghidoarca skoraði 6, Perla Ruth Albertsdóttir og Carmen Palamariu 3 og þær Elena Birgisdóttir, Steinunn Hansdóttir, Kristrún Steinþórsdóttir og Thelma Sif Kristjánsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Besti maður vallarins var markvörður Selfoss, Katrín Ósk Magnúsdóttir, sem varði 21 skot í leiknum.

Selfoss er áfram í 7. sæti deildarinnar með 25 stig en ÍBV er í 5. sæti með 33 stig.

Fyrri greinSelfoss tapaði í rokinu
Næsta greinÞórsarar undir í einvíginu