Selfoss semur við þrjá unga leikmenn

Knattspyrnumennirnir Freyr Sigurjónsson, Arnór Ingi Gíslason og Gylfi Dagur Leifsson skrifuðu allir undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss í síðustu viku.

Að sögn Gunnars Rafns Borgþórssonar, þjálfara karlaliðs Selfoss, hafa strákarnir allir stimplað sig inn í æfingahóp meistaraflokks karla og spilað mikið á undirbúningstímabilinu.

„Þetta eru efnilegir framtíðarleikmenn sem hafa allir farið í gegnum yngri flokkana hjá okkur á Selfossi og eru allir þrír í knattspyrnuakademíunni,“ segir Gunnar og bætir við að af 26 manna æfingahópi eru 18 heimastrákar.

Arnór Ingi er tvítugur sóknar/miðjumaður, Freyr nítján ára miðjumaður og Gylfi Dagur nítján ára vinstri bakvörður.

Selfossliðið undirbýr sig nú af kappi fyrir keppni á Íslandsmótinu sem hefst þann 7. maí næstkomandi. Liðið hefur leikið tvo leiki í Lengjubikarnum en honum lýkur í byrjun apríl. Þá heldur liðið til Spánar í æfingaferð til að ljúka undirbúningi fyrir sumarið.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Amfetamín fannst á Litla-Hrauni
Næsta greinLoka leiðinni að flugvélarflakinu