„Við mættum hérna til að sigra“

Kvennalið Selfoss er úr leik í bikarkeppninni í handknattleik eftir 22-26 tap á heimavelli gegn Íslands- og bikarmeisturum Gróttu í kvöld í bráðfjörugum leik.

„Þetta var svekkjandi, við mættum hérna til að sigra. Við áttum mjög góða kafla og sýndum mikla baráttu þannig að ég er virkilega stolt af liðinu. En það voru nokkrir kaflar í leiknum sem gerðu það að verkum að við misstum þær aðeins frá okkur. Við vorum óskynsamar í sókninni í fyrri hálfleik en þegar við náðum að stilla upp í vörn þá vorum við að halda vel,“ sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, markahæsti leikmaður Selfoss í kvöld.

„Þær spiluðu eins fast og dómararnir leyfðu í fyrri hálfleik og við ákváðum að svara af hörku í seinni hálfleiknum. Kannski vantaði okkur meiri reynslu til að klára þetta en við börðumst vel og fengum þvílíkt góðan stuðning úr stúkunni. Við sýndum að við erum á pari við þessi bestu lið og erum ekkert slakari þó að það séu 11 stig á milli okkar í deildinni.“

Gróttukonur voru mun sterkari í fyrri hálfleik og stóðu vaktina vel í vörninni. Selfoss missti boltann trekk í trekk og skoraði meðal annars ekki mark á átján mínútna kafla. Á meðan raðaði Grótta inn mörkum úr hraðaupphlaupum og leiddi verðskuldað, 8-13, í hálfleik.

Það voru hins vegar heimakonur sem mættu betur stemmdar inn í seinni hálfleikinn. Selfoss virtist í frekar vonlausri stöðu í hálfleik en þær löguðu vörnina í leikhléinu og náðu að jafna, 15-15, þegar ellefu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Liðið spilaði fantagóða vörn á þessum kafla og Áslaug Ýr Bragadóttir varði nokkur mikilvæg skot.

Leikurinn var í járnum það sem eftir lifði síðari hálfleiks en undir lokin náði Grótta að skríða framúr. Það var ekki síst að þakka markverðinum Írisi Björk Símonardóttur sem átti frábæran leik og varði 23 skot. Selfyssingar fundu ekki leiðina framhjá henni á lokamínútunum og Grótta vann að lokum fjögurra marka sigur.

Það gerist allt of sjaldan á kvennaleikjum að stúkan sé fullskipuð áhorfendum en heita mátti að svo væri í kvöld og Hanna var ánægð með stuðninginn.

„Já, þetta var alveg frábært og við erum þakklátar fyrir að fá allan þennan stuðning. Við hvetjum fólk bara til að halda áfram að mæta á deildarleikina. Okkur finnst þetta virkilega skemmtilegt og vonandi áhorfendunum líka.“

Hanna var markahæst Selfyssinga með 10/6 mörk, Adina Ghidoarca 5, Steinunn Hansdóttir og Kristrún Steinþórsdóttir 2 og þær Perla Ruth Albertsdóttir, Jóna Margrét Ragnarsdóttir og Elena Birgisdóttir skoruðu allar 1 mark.

Fyrri greinStóð á steini þegar aldan greip hann
Næsta grein64 þátttakendur frá þremur grunnskólum