FSu steinlá í Njarðvík

FSu sótti Njarðvík heim í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Heimamenn reyndust sterkari og sigruðu 100-65.

Njarðvíkingar tóku leikinn í sínar hendur strax í 1. leikhluta og leiddu 49-30 í hálfleik. Munurinn minnkaði ekki í síðari hálfleik, heldur þvert á móti, og að lokum skildu 35 stig liðin að.

Cristopher Caird lék ekki með FSu í kvöld, en greint var frá því eftir leik FSu gegn Haukum í síðustu viku að hann væri að fara í aðgerð vegna meiðsla á mjöðm. Þá hefur Ari Gylfason einnig verið frá vegna meiðsla og munar um minna þegar þessir tveir máttarstólpar eru fjarverandi.

Fimm umferðir eru eftir af Domino’s-deildinni og ætli FSu að halda sæti sínu þá þarf liðið að vinna þrjá af þessum fimm leikjum, svo lengi sem ÍR vinnur ekki leik. FSu er í 11. sæti með 6 stig en ÍR í því 10. með 10 stig og hefur betur í innbyrðis leikjum.

Tölfræði FSu: Christopher Woods 25 stig/17 fráköst, Hlynur Hreinsson 10 stig, Gunnar Ingi Harðarson 9 stig/5 fráköst, Bjarni Geir Gunnarsson 8 stig, Geir Elías Úlfur Helgason 6 stig, Þórarinn Friðriksson 5 stig, Arnþór Tryggvason 2 stig/6 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 4 fráköst.

Fyrri greinInghóls Reunion með Sálinni 7. maí
Næsta greinSkriðsund bætir, hressir og kætir