Fáheyrðir yfirburðir okkar krakka í stigakeppninni

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum 11-14 ára fór fram í Kaplakrika um síðustu helgi. 354 keppendur voru skráðir til leiks frá 19 félögum. 90 keppendur voru skráðir af sambandssvæði HSK, sem er trúlega fjölmennasta lið sambandsins á þessu móti frá upphafi.

Að þessu sinni voru gestaþátttakendur frá Treysti í Færeyjum sem settu skemmtilegan svip á mótið.

Það var ljóst strax í byrjun móts í hvað stefndi i í stigakeppninni, en lið HSK/Selfoss mætti samhent og sterkt til leiks. Þegar upp var staðið höfðu krakkarnir náð samtals 1012,5 stigum, 444,5 stigum meira en næsta lið. FH var í öðru sæti með 568 stig og ÍR-ingar í þriðja sæti með 336 stig. HSK krakkarnir komu með stigabikarinn heim, auk fimm bikara fyrir flest stig í einstökum flokkum. 11 ára strárkar og stelpur unnu stigakeppnina, 13 ára stúlkur og 14 ára strákar og stúlkur unnu einnig titla í stigakeppninni.

538 persónuleg met voru slegin á mótinu og áttu okkar keppendur stóran hluta þeirra. Alls unnu keppendur HSK 50 verðlaun á mótinu, 15 gull, 18 silfur og 17 brons. Glæsilega gert, en þetta er um þriðjungur allra verðlauna sem veitt voru á mótinu.

Fimm HSK met voru sett á mótinu. Dagur Fannar Einarsson, keppandi Selfoss, setti HSK met í 800 metra hlaupi 14 ára drengja. Hann hljóp á 2:21,69 mín og bætti tveggja ára gamalt met Þormars Elvarssonar um 26 sekúndubrot. Hákon Birkir Grétarsson Selfossi bætti þriggja ára gamalt met Styrmis Dan í 60m grindahlaupi í undanúrslitum, hljóp á 9,37 sek. Hann bætti svo eigið met í úrslitum um þrjú brot, hljóp á 9,34 sek.

Sveit HSK/Selfoss setti HSK met bæði í 14 og 15 ára flokki í 4 x 200 metra hlaupi. Sveitin hljóp á 1:47,88 mín. Í metsveitinni voru þeir Dagur Fannar Einarsson, Hákon Birkir Grétarsson, Kolbeinn Loftsson og Jónas Grétarsson. Ársgamalt met í 14 ára flokki var 1:52,62 mín og tveggja ára met í 15 ára flokki var 1:50,46 mín. Hér er því um stórbætingu að ræða.

Of langt mál yrði að telja upp glæstan árangur keppenda okkar, en eftirtaldir keppendur HSK/Selfoss náðu þeim árangri að verða sigursælastir í einstaklingsgreinum í sínum aldursflokki. Í flokki 11 ára stúlkna sigraði Auður Helga Halldórsdóttir í tveimur greinum. Í flokki 11 ára pilta sigraði Daði Kolviður Einarsson í þremur greinum. Í flokki 14 ára pilta sigraði Hákon Birkir Grétarsson í tveimur greinum.

Heildarúrslit mótsins má sjá á www.fri.is. Fleiri myndir frá mótinu eru á www.hsk.is.

Fyrri greinÞórsarar sigruðu í jöfnum leik
Næsta greinEldur í loftræstikerfi Selfosskirkju