Þórsarar sigruðu í jöfnum leik

Þór Þorlákshöfn heimsótti ÍR í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld. Þórsarar sigruðu 75-80 eftir jafna rimmu.

Leikurinn var hnífjafn allan tímann og liðin skiptust á að hafa forystuna. Staðan í leikhléi var 40-43, Þórsurum í vil. Þór hafði frumkvæðið allan síðari hálfleikinn en stigamunurinn var aldrei mikill. Þór náði mest tíu stiga forskoti, 68-78 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, en að lokum skildu fimm stig liðin að.

Þór er nú í 4. sæti deildarinnar með 20 stig, en ÍR er í 10. sæti með 10 stig, fjórum stigum fyrir ofan FSu sem er enn í fallsæti.

Tölfræði Þórs: Vance Hall 16 stig, Halldór Garðar Hermannsson 14 stig, Ragnar Nathanaelsson 14 stig/14 fráköst/6 stoðsendingar (30 í framlag), Þorsteinn Már Ragnarsson 12 stig/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 10 stig, Grétar Ingi Erlendsson 9 stig/7 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 5 stig.

Fyrri greinGríðarleg fjölgun útgefinna leyfa til gististaða
Næsta greinFáheyrðir yfirburðir okkar krakka í stigakeppninni