Selfoss gaf eftir í lokin

Selfoss tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttu 1. deildar karla í handbolta í kvöld þegar Fjölnir kom í heimsókn í Vallaskóla. Lokatölur leiksins urðu 26-28.

Jafnt var á öllum tölum upp í 5-5 fyrstu tólf mínútur leiksins. Í kjölfarið kom góður kafli hjá Selfyssingum sem náðu mest fjögurra marka forskoti, 11-7, þegar tæpar 25 mínútur voru liðnar. Skömmu áður hafði Fjölnir misst sterkan leikmann upp í stúku en Sveinn Þorgeirsson fékk beint rautt spjald á 20. mínútu fyrir að brjóta á Hergeiri Grímssyni í uppstökki.

Eitthvað virtist meðbyrinn stíga Selfyssingum til höfuðs því Fjölnir náði 5-1 kafla á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks og jöfnuðu 12-12 á lokasekúndum hálfleiksins. Þannig stóðu leikar í hléinu.

Selfyssingar voru ekki að nýta færin nógu vel í upphafi leiks og gátu þakkað Birki Fannari Bragasyni, markverði sínum, fyrir stöðuna í leikhléi en hann varði vel í fyrri hálfleik, alls tíu skot.

Seinni hálfleikur var jafn framan af en þegar 40 mínútur voru liðnar voru Selfyssingar komnir með tveggja marka forskot, 17-15, en Fjölnismenn voru fljótir að jafna 17-17.

Um miðjan fyrri hálfleik leiddu Selfyssingar 21-20 en Fjölnismenn skoruðu þá þrjú mörk í röð. Selfyssingar tóku leikhlé og reyndu að stilla saman strengi sína. Það gekk ekki vel í kjölfarið og Fjölnismenn gengu á lagið.

Munurinn var þrjú mörk, 25-28 þegar tvær og hálf mínútur voru eftir á klukkunni. Sóknarleikur Selfoss var örvæntingarfullur í lokin auk þess sem liðið var tveimur mönnum færri í tæpar tvær mínútur á lokakaflanum og það er yfirleitt ekki vænlegt til árangurs.

Með sigrinum jöfnuðu Fjölnismenn Selfoss að stigum í deildinni en liðin eru í 2.-3. sæti með 16 stig.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 6/2 mörk, Hergeir Grímsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu 5, Andri Már Sveinsson 5/1, Alexander Egan 2 og þeir Guðjón Ágústsson, Árni Geir Hilmarsson og Eyvindur Hrannar Gunnarsson 1 mark hver.

Besti maður Selfoss var Birkir Fannar Bragason sem varði 17/1 skot.

Fyrri greinHellisheiði, Sandskeið og Þrengsli lokuð
Næsta greinFSu skellti toppliðinu – Tröllatvenna Woods