„Það skiptir ekki máli hver skorar mörkin“

Kvennalið Selfoss er ennþá ósigrað á toppi Olís-deildarinnar í handbolta, þegar fjórum umferðum er lokið. Selfoss vann Fylki á heimavelli í kvöld í bráðskemmtilegum leik, 27-26.

„Þetta var virkilega skemmtilegt. Við vissum að Fylkir er með mjög sterkt lið og þetta eru alltaf erfiðir og skemmtilegir leikir á móti þeim. Það var engin undantekning í kvöld. Við byrjuðum ekki vel, vorum stirðar í gang og lengi að þjappa okkur saman í vörninni. En svo kom þetta í seinni hálfleik. Við náðum að vinna upp fjögurra marka forskot Fylkis með mikilli baráttu og virkilega góðum stuðningi úr stúkunni. Seinni hálfleikurinn var frábær og við héldum baráttunni út leikinn þannig að þetta var mjög gott,“ sagði Hrafnhildur Hanna Þastardóttir, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Hún átti stórleik fyrir Selfossliðið og skoraði 18 mörk, eða 66,6% allra marka liðsins. Hún var sammála blaðamanni að það væri ágætis árangur en bætti svo við af sinni alkunnu hógværð að „það skiptir ekki máli hver skorar mörkin, við unnum leikinn og ég er mest ánægð með það.“

Jafnt var á öllum tölum upp í 7-7 en Fylkir hafði undirtökin og kláraði fyrri hálfleikinn betur. Selfossvörnin var ekki að gera gott mót og Sara Jónsdóttir í marki Fylkis lokaði fyrir rammann á mikilvægum augnablikum. Staðan var 11-11 þegar skammt var eftir en Fylkir lauk fyrri hálfleik með áhlaupi og staðan var 12-15 í hálfleik.

Það var öllu betri stemmning hjá Selfyssingum í seinni hálfleik. Vörnin var fín í upphafi og Selfoss jafnaði 15-15 en þá kom aftur slæmur kafli og Fylkir náði fjögurra marka forskoti. Gestirnir voru hins vegar duglegir að safna brottvísunum í seinni hálfleik, oft fyrir litlar sakir, og það nýttu Selfyssingar sér vel. Selfoss breytti stöðunni úr 16-20 í 23-21 þegar tíu mínútur voru eftir og létu forystuna ekki af hendi eftir það.

Fylk­ir náði að minnka mun­inn niður í eitt mark þegar 25 sek­únd­ur voru eft­ir, 27-26, en Selfoss tók langa sókn í kjölfarið og gaf Fylki ekki færi á að jafna.

Hrafn­hild­ur Hanna var marka­hæst Sel­fyss­inga með 18/​4 mörk, Adina Ghido­arca skoraði 4, Perla Al­berts­dótt­ir og Elena Birg­is­dótt­ir 2 og Car­men Palam­ariu 1.

Áslaug Ýr Braga­dótt­ir varði 12/​2 skot í marki Sel­foss og var með 32% markvörslu.

Fyrri greinÓvissustigi lýst yfir vegna Skaftárhlaups
Næsta greinÞór og FSu í undanúrslit