Richard svaraði tvisvar

Varamaðurinn Richard Sæþór Sigurðsson skoraði bæði mörk Selfoss sem gerði 2-2 jafntefli við Fjarðabyggð í 1. deild karla í knattspyrnu í dag.

„Úr því að við lentum tvisvar undir í leiknum þá er ég sáttur við að taka eitt stig út úr þessu,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Þetta var harður leikur á blautum velli og það tók dálítið kraftinn úr mönnum. Menn voru orðnir þreyttir í seinni hálfleik, það hægðist á spilinu og menn fóru að lyfta boltanum meira. En heilt yfir fannst mér Selfossliðið sterkara og betra allan tímann. Mér finnst við vera að komast í nokkuð gott stand,“ sagði Gunnar.

Selfossliðið lenti tvisvar undir og í bæði skiptin svaraði varamaðurinn Richard Sæþór Sigurðsson með marki. Gunnar var ánægður með Richard en vildi ekki lofa því að hann myndi verða í byrjunarliðinu í næsta leik.

„Við vitum það ekki, það er svo langt í næsta leik. En hann kom frábærlega inná og stóð sig vel og gerði bara það sem þurfti að gera. Ef framherjarnir eru ekki að skora það þá hlýtur hann að gera tilkall til þess að byrja næst. Annars er ég ánægður með það hvernig liðið svaraði í heild sinni eftir að hafa lent undir. Við hættum aldrei og gefumst aldrei upp. Það er mjög jákvætt.“

Gestirnir byrjuðu af miklum krafti í rigningunni á JÁVERK-vellinum en eftir nokkrar mínútur komust Selfyssingar á gott ról og voru sterkari aðilinn út fyrri hálfleikinn. Færin voru þó ekki mörg, Ragnar Þór Gunnarsson átti skalla í þverslána á marki Fjarðabyggðar en hann og Einar Ottó voru sprækustu liðsmenn Selfoss í bleytunni í fyrri hálfleik.

Staðan var 0-0 í hálfleik en síðari hálfleikur var rólegur framan af, enda hætt að rigna. Gestirnir komust yfir á 59. mínútu en Brynjar Jónasson skoraði þá eftir klafs í vítateig Selfyssinga uppúr hornspyrnu.

Á 64. mínútu kom Richard Sæþór Sigurðsson inná hjá Selfyssingum og hálfri mínútu síðar náði hann að jafna metin með sinni fyrstu snertingu í leiknum. Ragnar Þór var í baráttunni um boltann við markvörð Fjarðabyggðar sem endaði með því að boltinn barst út á Richard sem skoraði í autt markið.

Eftir jöfnunarmarkið virtust Selfyssingar líklegri til að bæta við og þess vegna var það ákveðinn skellur fyrir þá vínrauðu að fá mark í andlitið á 77. mínútu. Fjarðabyggð fékk þá aukaspyrnu úti á velli sem endaði í netinu, með viðkomu í Andy Pew. Sjálfsmark á kappann.

Selfoss hélt áfram að sækja og á 85. mínútu var Richard aftur réttur maður á réttum stað, og markið keimlíkt því fyrra. Elton Barros sótti þá að markverði gestanna og boltinn barst til Richards sem skilaði honum aftur í autt markið.

Liðin skiptust á að sækja á síðustu mínútunum en færin urðu ekki fleiri, og mörkin þess vegna ekki heldur.

Í hinum leikjum dagsins gerðu Þróttur og Fram jafntefli og Grótta tapaði fyrir Haukum. Röð liðanna í botnbaráttunni er því óbreytt, en Fram og Selfoss hafa aukið bilið niður í Gróttu í 11. sætinu um eitt stig.

Fram hefur 18 stig í 9. sæti, Selfoss 17 stig í 10. sæti og Grótta er í 11. sæti með 15 stig. BÍ/Bolungarvík tapaði stórt gegn KA í dag og eru Djúpmenn því fallnir úr deildinni.

Fyrri greinUpplýsingaskilti um brunninn í Tungu
Næsta greinGríðargóður útisigur Ægismanna