Selfoss fékk skell í Grindavík

Karlalið Selfoss í knattspyrnu tapaði 5-0 þegar liðið heimsótti Grindavík í 1. deildinni í kvöld.

Það gekk ekkert upp hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik og Grindvíkingar komust yfir með marki úr vítaspyrnu strax á 9. mínútu eftir að Andy Pew braut af sér í teignum. Rúmum fimm mínútum síðar var staðan orðin 2-0 og Grindvíkingar héldu áfram að þjarma að gestum sínum. Þriðja markið kom í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan var 3-0 í leikhléi.

Selfyssingar færðu sig framar á völlinn í seinni hálfleik og reyndu að sækja en það plan fór út um gluggann á fyrsta korterinu þar sem Grindvíkingar kláruðu leikinn með tveimur mörkum úr skyndisóknum.

Selfossliðinu tókst ekki að skora í seinni hálfleiknum en liðið fékk nokkur prýðileg marktækifæri sem ekki nýttust. Þeir vínrauðu luku svo leik með tíu leikmenn inni á vellinum en Ingi Rafn Ingibergsson fékk beint rautt spjald fyrir brot á 88. mínútu.

Selfoss situr nú í 10. sæti deildarinnar með 13 stig en Grótta er í 11. sæti með 11 stig og á leik til góða.

Tveir leikmenn léku sinn fyrsta leik fyrir Selfoss í sumar. Vinstri bakvörðurinn Brynjar Þór Björnsson sem kom til Selfoss á láni frá Stjörnunni við lok félagaskiptagluggans og Richard Sæþór Sigurðsson sem kom aftur úr láni frá ÍBV í glugganum.

Richard byrjaði á bekknum og kom inná á 51. mínútu. Þar sat líka Haukur Ingi Gunnarsson í fyrsta skipti í sumar eftir að hafa verið á láni hjá KFR, sem og „gamla“ kempan Jóhann Ólafur Sigurðsson sem var með markmannshanskana til taks ef eitthvað kæmi uppá.

Fyrri greinGuðmunda vann brons á HM
Næsta grein„Held að Hollendingum muni bregða svolítið“