Býst við mik­illi frægð á Sel­fossi

Fjöldi Íslend­inga er nú að keppa á Special Olympics í Los Ang­eles. Elsti kepp­and­inn frá Íslandi á Special Olympics, Guðmund­ur Ásbjörns­son, keppti í gær í kraft­lyft­ing­um í 74kg flokki.

Hann hafnaði í fjórða sæti í sín­um flokki í bekkpressu og fimmta sæti í rétt­stöðulyftu, hné­beygju og í sam­an­lögðu.

Guðmund­ur er fædd­ur árið 1956 og er því 59 ára gam­all. Hann er al­inn upp í sunn­lensk­um sveit­um á spen­volgri kúamjólk og heimaræktuðu lamba­kjöti. Þetta er fyrsta stór­mót Guðmund­ar á er­lend­ir grund og hann ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægst­ur. Guðmund­ur hóf að æfa lyft­ing­ar fyr­ir þremur árum og hann sýn­ir það og sann­ar að það er aldrei of seint að byrja að styrkja sig.

Á Face­booksíðu Íþrótta­banda­lags fatlaðra seg­ir að það hafi vakið mikla at­hygli í lyft­inga­keppn­inni að lang­elsti kepp­and­inn væri frá Íslandi. Guðmund­ur fékk mikla at­hygli og var tek­inn í viðtal strax að lok­inni keppni. Hann er að eig­in sögn nokkuð sann­færður um að hann verður mjög fræg­ur á Sel­fossi eft­ir þessa leika í LA.

mbl.is greinir frá þessu

Fyrri greinHaukur og Richard kallaðir úr láni
Næsta greinMunaði 0,04% á lægstu tilboðunum